Barna- og unglingamót í pílukasti – Digranes, 27. október
Síðastliðinn sunnudag, 27. október, hélt Pílufélag Kópavogs spennandi barna- og unglingamót í pílukasti í Digranesi þar sem ungu keppendurnir sýndu bæði færni og leikgleði. Þátttakendur voru á aldrinum 8 til 16 ára og mætti þeim fjölmenni sem hvatti unga kastara til dáða.
Í barnaflokki tóku þrjú börn þátt: Elín Dögg, Edda Sólborg og Hákon Torfi. Þau kepptu í 301 (beint inn/beint út), best af 3, þar sem þau spiluðu eina umferð hvert á móti öðru. Mótanefnd þurfti að grípa til leggjahlutfalls til að skera úr um úrslit, þar sem allir höfðu unnið einn leik hvert. Svo fór að Edda Sólborg hlaut 1. sætið eftir harða keppni, Hákon hreppti 2. sætið og Elín Dögg varð í 3. sæti. Börnin sýndu mikinn metnað og gleði, og er gaman að sjá framfarir hjá þeim sem eru auðsjáanlegar milli móta.
Unglingaflokkurinn var einnig vel mannaður með fimm keppendum. Unglingarnir spiluðu 501 (tvöfaldur út), best af 3, og var hart barist við spjaldið. Fyrst var spilaður riðill þar sem fjórir efstu komust áfram í útsláttarkeppni. Í undanúrslitum mættust svo Kári Vagn og Ísak Máni annars vegar, og Hlynur Nói og Óðinn Hrafn hins vegar. Kári Vagn og Óðinn Hrafn unnu sína undanúrslitaleiki og mættust í úrslitum. Í úrslitaleiknum tókst Kára Vagni að tryggja sér sigur eftir harða keppni gegn Óðni Hrafni en Kári Vagn er að æfa og spila vel þessa dagana. Óðinn Hrafn gerði sér því gott 2. sætið að þessu sinni, Ísak Máni hreppti 3. sætið og Hlynur Nói varð í 4. sæti.
Allir þátttakendur sýndu mikla elju og kapp, og var greinilegt að áhuginn á pílukastinu er að aukast meðal yngri kynslóðarinnar. Allir höfðu gaman af og verðlaun voru í boði Pingpong.is. Pílufélag Kópavogs þakkar öllum sem tóku þátt fyrir skemmtilegan dag og við hlökkum til næstu móta.
Comments