top of page

Sævar Þór Kópavogsmeistari í GRAND PRIX

  • pfk111
  • Nov 18
  • 2 min read
ree

Kópavogsmótið í GRAND PRIX fór fram fimmtudaginn 14. nóvember. Sextán leikmenn mættu til leiks, spilað var í riðlum og svo í 16 manna útslætti.



Dregið í fjóra riðla, fjórir leikmenn í hverjum riðli og var spilað best af fimm alla keppnina. Mikil gleði var í Digranesi og skemmtu leikmenn sér vel. Margir góðir leikmenn voru mættir til leiks og voru góð skor og há meðaltöl í mörgum leggjum og leikjum.


ree

A riðill var nokkuð jafn á pappírunum en í honum léku þeir Ísak, Snæland, Bragi og Kristinn. Það var hinn ungi og bráðefnilegi Ísak sem vann alla sína leiki í riðlinum og tók efsta sætið. Til marks um jafnan riðil þá þurfti Kristinn, sem margoft hefur spilað sig upp í efstu deild Kópavogsmótaraða, að bíta í það súra epli að verma neðsta sæti riðilsins.



ree

Í B riðli áttust við þeir Jóhann, Elís, Siggi Þ og Atli. Þeir Atli og Elís háðu harða rimmu um efsta sætið en svo fór að Atli vann þeirra viðureign 3-2 og þar með alla sína leiki í riðlinum. Elís tók annað sætið, Siggi Þ það þriðja og Jóhann, sem er að stíga sín fyrstu skref í keppnispílu, varð í fjórða sæti riðilsins.




ree

Í C riðli léku þeir Hlynur, Stjáni, Halli E og Guðjón H. Skemmst er frá því að segja að Halli E spilaði mjög vel og tapaði ekki legg. Guðjón H tók annað sætið eftir góðan sigur á hinum unga og efnilega Hlyn en Hlynur getur varla komið nálægt píluspjaldi þessa dagana án þess að henda í 180. Stjáni tók fjórða sæti riðilsins.




ree

D riðil skipuðu þeir Siggi T, Kolli, Lárus og Sævar. Ungu strákarnir voru að kasta vel á köflum en svo fór þó að Sævar vann alla sína leiki í riðlinum. Ungu mennirnir unnu allir einn leik hver svo leggjahlutfall réði úrslitum í riðlinum. Niðurstaða útreikninga var sú að Kolli tók annað sætið, Lárus það þriðja og Siggi T það fjórða.




ree

Margir hörkuleikir í útslætti sem hefðu getað dottið hvoru megin en að lokum voru það Sævar og Halli E sem áttust við í úrslitum. Halli komst í 2-0 í úrslitaleiknum og allt benti til þess að hann færi með sigur á hólmi en Sævar var fljótur inn í þriðja legg og minnkaði muninn. Fjórði leggur var spennandi en Sævar marði legginn og allt í járnum. Í oddalegg voru þeir félagar svo nokkuð jafnir niður í útskot en þá hófst ákveðinn darraðadans þar sem hver pílan á tvöfaldan geigaði. Sævari tókst svo loks að loka þeim tvöfalda og um leið mótinu sjálfu og er hann Kópavogsmeistari í Grand Prix 2025.

Til hamingju Sævar 🎉



ree

Þeir leikmenn sem duttu út í 16 manna úrslitum spiluðu um forsetabikarinn þar sem spilað var best af þremur alla leið. Svo fór að Siggi T vann Sigga Þ í úrslitaleiknum en Siggi T sýndi sínar bestu hliðar í forsetabikarnum og tapaði ekki legg þar.





Við þökkum öllum leikmönnum fyrir þáttöku á mótinu og minnum á næstu mót og viðburði hjá okkur sem er að finna á Viðburðir PFK.

 
 
 

Comments


AUGLÝSING

bottom of page