Gríðarleg spenna og úrslit ráðin í sumarmótaröð Pingpong.is
- pfk111
- Sep 14, 2024
- 2 min read

Fimmta og síðasta umferð sumarmótaraðar Pingpong.is fór fram fimmtudaginn 12. september. Tólf leikmenn mætu til leiks og spiluðu þeir í tveimur riðlum með útslætti í kjölfar riðla. Mikil stemning var í salnum en sú staða var uppi að fjórir leikmenn sem mættir voru gátu unnið mótaröðina.
Margir hörkuleikir voru spilaðir og ljóst að margir leikmenn eru að bæta sig hratt. Til gamans má geta að hinn 71 árs Guðjón Hlöðvers smellti 180 í spjaldið gegn Sævari í riðlinum, hrikalega vel gert hjá honum.
Fjórir fóru upp úr hvorum riðli. Atli Þór og Halli Eysteins mættust í 8 manna útslætti en báðir áttu þeir möguleika á að vinna mótaröðina. Svo fór að Halli vann leikinn og allt opið í stigakeppninni. Í undanúrslitum áttust annars vegar við Marco og Halli og hins vegar Ási og Kári. Halli, Ási og Kári áttu allir möguleika á að vinna mótaröðina. Marco og Kári áttust svo við í úrslitum og fór svo að Marco vann í háspennuleik og er sigurvegari þessarar 5. og síðustu umferðar.
Hvað varðar mótaröðina og úrslit hennar þá var rosalegt líf í titilbaráttunni allt til enda. Fyrir kvöldið var Atli með nokkuð góða forystu á næstu menn en ljóst að með sigri gætu Ási, Kári og Halli náð Atla en einungis ef Atli kæmist ekki lengra en í 8 manna úrslit. Sem fyrr segir mættust Halli og Atli í 8 manna úrslitum þar sem Halli hafði betur og því þrír leikmenn í undanúrslitum sem hefðu með sigri í kvöld getað jafnað Atla að stigum og knúið fram hreinan úrslitaleik um titilinn. Atli hélt sér heitum samhliða síðustu leikjum vitandi að það væru góðar líkur á að hann væri á leið í úrslitaleik um titilinn. Atli má hins vegar þakka Marco fyrir greiðann að hafa tekið sigur í kvöld sem tryggði Atla sigur á mótaröðinni og hlýfði honum við háspennuleik. Kári tók 2. sætið í heildarstigakeppninni með 2. sætinu í kvöld og Ási og Halli deila 3.-4. sæti mótaraðarinnar eftir að hafa einmitt verið saman í 3.-4. sæti í kvöld. Frábær mótaröð í alla staði og spenna allt til enda.

Stigatafla sumarmótaraðar Pingpong.is og PFK.is
Við þökkum öllum 30 keppendum sem mættu og tóku þátt í þessari snörpu og skemmtilegu sumarmótarröð Pingpong.is og PFK. Við þökkum Pingpong.is kærlega fyrir stuðninginn og hlökkum til næstu mótaraðar sem hefst fimmtudaginn 3. október.



Comments