top of page

Kópavogsmeistaramót karla í 501 - úrslit



Fyrsta Kópavogsmeistaramót karla í 501 fór af stað mánudaginn 29. apríl. Byrjað var að spila í riðlum og voru 20 leikmenn sem mættu til leiks. Spilað var best af 7 í riðlum. Fjórir riðlar voru spilaðir og voru keppendur dregnir í riðla. Frétt um riðlakeppnina kom út 30. apríl.


Fimmtudaginn 2. maí var svo útsláttur. Mikil spenna ríkti í Digraneshöllinni þetta kvöld og einbeitingin skein úr andlitum keppenda.


Fyrstu leikirnir voru í 16 manna útslætti, spilað best af 7.

Haraldur Eysteinson, 16 ára gamall, mættti Guðjóni H. Hlöðversyni sjötugum. Haraldur átti ekki í vandræðum með Guðjón og vann 4-0. Haraldur spilaði mjög vel og var með 63,96 í avg.

Jón Valgeir mætti Hraunari Karli og úr varð hörkuleikur en að lokum var það Jón Valgeir sem vann 4-2.

Magnús Már mætti Bjarna Vals í nokkuð jöfnum leik en Magnús var öflugur og vann 4-1.

Marco Recenti mætti Hallgrími Hannesar í háspennuleik en að lokum vann Marco 4-2.

Kári Vagn, 12 ára gamall, mætti Þorbirni Óðni sem er 10 ára. Kári Vagn vann nokkuð örugglega 4-1. Kári byrjaði á 16 pílna legg og spilaði alla leggina mjög vel en hann spilaði á 64.12 avg.

Ási Harðar átti að mæta Gunnlaugi en Gunnlaugur mætti ekki til leiks vegna veikinda.

Sævar Þór vann Helga Freyr 4-1. Þessi leikur var mjög jafn niður í útskot en Sævar var öflugri í úttektunum.

Kristján Sig átti að mæta Braga Emils en Bragi forfallaðist vegna vinnu.


8 manna útsláttur, spilað best af 7.

Haraldur Eysteins mætti Jóni Valgeiri. Sem fyrr var Haraldur fljótur niður í útskot en tvöföldu reitirnir sviku hann að þessu sinni. Jón Valgeir spilaði hins vegar mjög vel og vann 4-0 en báðir voru þeir með yfir 61 í avg.

Magnús Már mætti Marco Recenti. Þessi leikur var ansi þægilegur fyrir Magnús þar sem Marco var ekki á deginum sínum og niðurstaðan 4-0 fyrir Magnús.

Kristján Sig mætti Sævari Þór. Í þessum leik sýndi Kristján afhverju hann er í landsliðinu. Hann tók 13 pílna legg og spilaði leikinn á 79,11 avg. Sævar kastaði ágætlega, með tæplega 64 avg, en Kristján var í ham og vann 4-0.

Kári Vagn mætti Ása Harðar. Kári byrjaði betur og vann fyrsta legginn en svo fór Ási að hitna og tók út í öðrum legg 126 (T19, T19, D6). Ási vann að lokum 4-1 í góðum spennutrylli. Báðir spiluðu yfir 60 avg í leiknum.


Undanúrslit, spilað best af 9.

Jón Valgeir mætti Magnúsi í frábærum háspennuspennuleik. Jón byrjaði betur og vann fyrstu tvo leggina. Þá kom Magnús með 15 pílna legg og jafnaði svo í næsta legg 2-2. Jón komst aftur yfir 3-2 en þá stimplaði Magnús sig inn á vakt og vann næstu þrjá leggi og leikinn 5-3.


Í hinum undanúrslitaleiknum áttust við Ási og Kristján. Ási gat með engu móti hitt tvöfaldan reit í þessum leik og skemmst er frá því að segja að Kristján vann leikinn örugglega 5-0.


Úrslitaleikur, spilað best af 9.

Magnús Már mætti Kristjáni Sig í úrslitum um Kópavogsmeistaratitilinn. Magnús komst í 1-0 í frekar tíðindalitlum 25 pílna legg og ljóst að allt var undir. Í öðrum legg var Kristján fljótur niður í útskot en tókst ekki að klára. Magnús nýtti sér það til fulls og tók út 75 í búlli. Þá svaraði Kristján með úttekt á 126 með búlli (D19, 19, bull). Frábærar úttektir hjá þessum öflugu leikmönnum. Magnús komst í 3-1 með 18 pílna legg en Kristján minnkaði muninn í 3-2 með 20 pílna legg. Þá var komið að Kristjáni að sýna mátt sinn og megin þegar hann jafnaði leikinn í 3-3 með því að taka út 160 - frábærar pílur. Kristján komst svo í 4-3 með 18 pílna legg en Magnús jafnaði um hæl 4-4 og ljóst að oddalegg þyrfti til að skera úr um úrslit leiksins. Í oddaleggnum spilaði Kristján stöðugan leik en þreföldu reitirnir brugðust Magnúsi. Svo fór að Kristján kláraði oddalegginn í 20 pílum og er Kópavogsmeistari karla í 501.



Frábæru fyrsta Kópvogsmeistarmóti í 501 karla er þá lokið. Margir skemmtilegir leikir fóru fram og mörg glæsileg útskot voru tekin. Kristján átti fæstu pílna legginn eða 13 pílur og hann átti líka hæsta útskotið eða 160 út.

Til hamingju Kristján með sigurinn. Til hamingju Magnús með annað sætið og Ási og Jón Valgeir með þriðja til fjórða sætið.



Gaman er að segja fá því hvað ungu strákarnir spiluðu vel í þessu móti. Kári Vagn 12 ára vann fimm af sex leikjum sínum og spilaði á 58,4 avg í mótinu. Haraldur Björgvin 16 ára vann líka fimm af sex leikjum sínum og var með 63,50 í avg í mótinu. Svo spilaði Þorbjörn Óðinn 10 ára fimm leiki, vann einn og komst í 16 manna útslátt. Hann spilaði á 49,60 avg í mótinu. Anton Freyr og Óðinn Logi spiluðu einnig í mótinu en komust ekki upp úr sínum riðlum. Anton vann einn leik, en Óðinn tapaði sínum leikjum. Allir eiga þessir ungu menn framtíðina fyrir sér í pílukasti.












0 comments

AUGLÝSING

bottom of page