Sævar Þór Sævarsson nýr formaður PFK
- pfk111
- May 22, 2024
- 1 min read

Auka-aðalfundur Pílufélags Kópavogs var haldinn í gær 21. maí. Þar var Sævar Þór Sævarsson kosinn formaður félagsins.
Sævar hefur verið í stjórn PFK og tekur nú við sem formaður félagsins af Ásgrími Harðarsyni. Ásgrímur verður áfram í stjórn félagsins sem framkvæmdastjóri og gjaldkeri auk þess sem Marco Recio kemur inn sem meðstjórnandi og Haraldur Birgisson kemur inn sem varamaður. Bjarni Valsson heldur áfram sem varaformaður félagsins og Hraunar Karl Guðmundsson er áfram meðstjórnandi.
Sævar er menntaður sálfræðingur og er með meistaragráðu í faginu auk sérfræðiréttinda í klínískri sálfræði fullorðinna. Hann starfar á Landspítalanum og hefur gert það undanfarin níu ár.
Helstu markmið Sævars eru að efla yngriflokkastarf félagsins og bæta við mótum og mótaröðum hjá félaginu. Sævar hefur verið yngriflokkaþjálfari PFK síðastliðið ár og hefur verið mikill uppgangur í yngriflokkastarfi félagsins. Um 50 börn og unglingar hafa verið að æfa pílu í vetur við góðar undirtektir en Sævar mun áfram leiða yngriflokkastarf félagsins.
Við óskum Sævari til hamingju með formannsstólinn og óskum honum velfarnaðar á þessum spennandi tímamótum.



Comments