Ási og Bragi unnu 301 tvímenning
- pfk111
- Dec 5
- 2 min read
Updated: 7 days ago

Pílufélag Kópavogs hélt í fyrsta skipti Kópavogsmót í 301 tvímenningi (tvöfaldur inn, tvöfaldur út) fimmtudaginn 4. desember. Mótið vakti mikla athygli og mættu leikmenn úr öðrum félögum til að taka þátt, en alls mættu 20 keppendur og mynduðu þeir 10 pör. Dregið var í tvo riðla með fimm pörum í hvorum riðli, og ríkti góð stemning frá fyrstu köstum.
Spennandi Keppni í Digraneshöllinni
Keppnin var jöfn og spennandi, enda keppt í best af 5 (fyrstur í þrjá) alla leið frá riðlum og upp í úrslitaleik. Fjögur pör komust áfram upp úr riðlunum og héldu áfram í útsláttarkeppni þar sem baráttan harðnaði eftir því sem á leið. Eitt einkennandi fyrir mótið var fjölbreyttur hópur keppenda. Aldursmunurinn var mikill – elsti keppandinn nýorðinn 80 ára, á meðan þeir yngstu voru 12 ára. Þrátt fyrir mismikla reynslu sameinaðist hópurinn í frábærri stemningu og íþróttamennsku á pílulínunni.


Jafnir riðlar – sterk pör detta út
Keppnin í riðlunum var jöfn og spennandi og komust aðeins fjögur pör upp úr hvorum riðli. Þar urðu nokkrar óvæntar niðurstöður. Úrvalsdeildarspilarinn Kári Vagn og makkker hans Elís náðu sér ekki á strik og komust ekki upp úr riðlinum þrátt fyrir flotta spilamennsku á köflum. Í hinum riðlinum duttu út hinn síungi Guðjón H. og Kristinn en þeir voru í hörkuriðli og féllu naumlega úr leik. Báðar þessar niðurstöður komu mörgum á óvart og undirstrikuðu hversu jafnt og öflugt mótið var.
Úrslit úr riðlum og æsispennandi 8 liða úrslit
Eftir riðlakeppnina tók við 8 liða útsláttur þar sem ekkert annað en sigur dugði. Þar voru háðar nokkrar flottar viðureignir:
• Ási og Bragi unnu Alex Mána og Gulla afa hans í frábærum leik sem endaði 3–2.
• Siggi Þorsteinson og Björn tryggðu sér dramatískan 3–2 sigur gegn Pétri og Söndru, þar sem síðasta pílan hjá Söndru féll ótrúlega úr tvöföldum í oddalegg. Siggi og Björn nýttu tækifærið og lokuðu leiknum í næsta kasti og sigruðu.
• Ungu strákarnir, Hlynur Nói og Ísak Máni, unnu sannfærandi 3–0 sigur gegn Elvari og Kolbeini.
• Arnar og Siggi S. voru engu minna sannfærandi og sópuðu Guðjóni Dan og Ragnari, út húsi með 3–0.

Undanúrslitin
Í undanúrslitum héldu Ási og Bragi uppteknum hætti og unnu Sigga Þ. og Björn 3–1 í tiltölulega öruggum leik. Hinn undanúrslitaleikurinn var hins vegar spennudrama frá fyrstu köstum; Arnar og Siggi S. börðust við efnilegu 12 ára strákana Ísak Mána og Hlyn Nóa. Það var hnífjafnt og endaði 3–2, þar sem ungu mennirnir fengu fjölmarga möguleika á að tryggja sér sæti í úrslitaleik, en allt kom fyrir ekki og reynslan hafði að lokum sigur.

Úrslitaleikurinn
Í úrslitum mættust þar með pörin Ási Harðar og Bragi Jóns gegn Arnari og Sigga S. eftir afar vel heppnað mót hjá báðum pörum. Úrslitaleikurinn var skemmtilegur og spennandi en Ási og Bragi höfðu á endanum betur og unnu leikinn 3–1. Mótið tókst einstaklega vel og hrósuðu bæði keppendur og áhorfendur skipulaginu. Pílufélag Kópavogs stefnir á að halda áfram að efla pílukast í bæjarfélaginu með fleiri fjölbreyttum og skemmtilegum keppnisviðburðum á komandi misserum.
Við þökkum öllum leikmönnum fyrir þátttöku á mótinu og minnum á næstu mót og viðburði hjá okkur sem er að finna á Viðburðir PFK.



Comments